Monday, April 30, 2007

Helgin og bumba

Jæja bara annað blogg á nokkrum dögum.
Góða veðrið hér heldur áfram, veðrið um helgina var mjög gott og til að halda upp á það lærði ég nánast ekki neitt heldur gerði ýmislegt annað.
Á föstudagskvöldið fórum við í Kokteilapartý hjá Sollu og Niels, þau hitta alltaf fólk fyrir árshátíðina hjá DTU og eru með kokteilapartý. Tryggvi fékk þónokkra kokteila og ég drakk bara sódavatn, en það litur margir skrautlegir kokteilar dagsins ljós. Svo fór fólkið á árshátíð en þar sem það var uppselt og við áttum ekki miða fórum við bara heim á leið. Stoppuðum aðeins í bænum og kíktum með Gunna B í einn bjór áður en við fórum heim.
Ég fór svo í klippingu hja Ingu Rós á laugardagsmorguninn og fékk sumarklippingu, var mjög fínt því toppurinn minn var orðinn allt of síður. Hitti Tryggva svo úti í búð og við keyptum inn fyrir vikuna. Þegar við komum heim og tókum póstinn úr póstkassanum hafði Tryggvi fengið bréf frá vinnunni sinni um að hann fengi 7000 DKkr í orlof utborgað. Hann gat nú ekki átt svona marga peninga og við urðum því að fara í bæinn og versla.
Tryggvi verslaði sér buxur, skó og skyrtur og meira að segja nýja skó handa mér :) Ótrúlega flotta og þægilega Camper skó (sjá mynd). Þegar við vorum að labba á Strikinu labbaði ég nánast í fangið á Lindu Sif sem var hér í helgarferð. Ótrúlgea fyndið að við skildum bara rekast svona á hvor aðra.
Þegar heim úr bæjarferðinni kom tók við smá tiltekt sem var alveg nauðsynleg enda ekki búið að taka til hér á bæ í jaa ansi langan tíma. Um kvöldið kíktum við svo aftur niður í bæ og byrjuðum á því að hitta Frosta sem var hér í Golfferð með Hauki bróður sínum. Ég sat aðeins með þeim strákum á Hvids vinstue og svo fór ég og hitti Lindu Sif aðeins áður en ég tók seinustu lest heim.
Þar sem ég lærði ekki neitt á laugardaginn var planið að vera rosalega dugleg á sunnudaginn en þegar ég vaknaði var ég bara alls ekki í stuði til að eyða þessum góðviðrisdegi í lestur. Ég reyndi að gera eitthvað þangað til Tryggvi vaknaði en svo fórum við í hjólatúr. Hjóluðum niður að langelinje, löbbuðum þar um, sáum litlu hafmeyjuna, stórt skemmtiferðarskip og fórum í gegnum kastellet. Á leiðinn heim kíktum við svo á kaffi hús og fengum okkur smá hressingu. Notalegur og rólegur dagur, svo þegar heim kom reyndi ég aðeins að kíkja í bækurnar.
Það er farið að rukka mig um bumbumyndir svo ég tók nokkrar núna í kvöld, hérna er ein, ég er allavega komin með smá bumbu og byrjuð að nota óléttufötin sem Lilja lánaði mér. Takk kærlega fyrir lánið Lilja :)

Jæja ætli ég láti þetta ekki nægja í bili og fari að kíja í háttinn.

Wednesday, April 25, 2007

Síðan seinast

Síðan siðast hefur verið nóg að gera. Uhhmm það er bara spurning hvort ég muni hvað...

Páskarnir voru fullir af mat og gestum og sumir voru bara fullir!! Gígja og Stefnir komu og gistu hjá okkur Sella og Gummi komu og gistu hjá Sollu og Niels. Hilli kom og fékk lánað íbúð bróður síns....

Á skírdag hittumst við öll og skemmtum okkur vel ,það fréttu Kári og Rabbi og ákváðu að taka næstu vél til Köben svo þeir voru mættir á föstudaginn langa. Barirnir, veitingastaðirnir, skemmtistaðirnir og búðirnar í kaupmannahöfn voru skoðuð meðan þau dvöldust hér. Skemmtunin endaði svo á sunnudeginum með páskafrokost heima hjá okkur Tryggva. Tryggvi sá um innkaupinn og það var greinilegt að hann hélt að allir borðuðu jafn mikið og hann eða meira. Allavega var nóg af mat svo við þurftum ekki að elda fyrr en helgina eftir. En það var svo sem ekki svo slæmt því í vikunni eftir páska var nóg að gera hjá okkur báðum í skólanum. Ég var að undirbúa lokin á fyrsta hluta lokaverkefninsins og svo þurfti líka að vinna í lokaudnirbúningnum af finnlandsverkefninu. Helgarvinna minnkaði ekki álagið en þessum verkefnum var að mestu lokið á þriðjudaginn í seinustu viku.

Á miðvikudaginn var förinni heitið til Helsinki þar sem lokahendur voru lagðar á finnlandsverkefnið og á föstudaginn var Final Gala þar sem við vorum með stand þar sem við kynntum verkefnið og svo var einnig formleg kynnig fyrir framan fullan sal af fólki. Það gekk allt saman mjög vel og við fengum 5 fyrir verkefnið sem er hæsta einkunn í Finnlandi. Það fannst okkur ekki slæmt. Á föstudagskvöldið ollum þátttakendum í námskeiðinu boðið í veislu og það var mjög skemmtilegt. En þar ég var orðin frekar þreytt eftir erfiðar tvær vikur og gat ekki gleymt þreytunni með að hella í mig áfengi þá fór ég frekar snemma heim. En það var líka fínt þar sem ég gisti hjá Gunnhildi frænku og hafði þá smá tíma til að tala við hana.

Ég kom svo heim á laugardaginn notaði restina af helginni til að slappa af. Á mánudaginn hófst svo aftur vinna við lokaverkefnið og núna er það það eina sem ég á eftir. Það er ágætt að geta einbeitt sér fullkomlega af því.

Af lilta bumbubúanum er það að frétta að við fórum í sónar í dag og allt leit vel út. Hendur, fætur, hjarta, magi og fleira á réttum stað. Sem er það sem skiptir mestu máli. Það voru tekin allskonar mál af barninu og út frá því var reiknað að ég eigi að fæða 21 sept. Þá kemur í ljós hvort þetta verður strákur eða stelpa, við hefðum hugsanlega geta fengið að vita kynið í dag en gerðum það ekki. Ég er líka byrjuð að finna fyrir spörkum, það er ótrúlega fyndið og skrýtið.

Hérna er ein mynd úr sónarnum og fyrir þá sem eiga erfitt með að sjá eitthvað út úr henni þá sér maður barnið frá hlið og höfuðið er til vinstri og hnefi yfir andlitinu svo kemur búkur og "holurnar eru hjarta, magi og ég held pissublaðra" svo sjást fæturnar að hnjám :)

Jæja læt þetta duga af fréttum í bili