Wednesday, May 16, 2007

Brotin gleraugu - stolið hjól

Já síðan ég skrifaði seinast eru bæði skemmtilegir og ekki svo skemmtilegir hlutir búnir að gerast. Ef við byrjum á þessu leiðinlega, á fimmtudaginn fyirr næstum tveimur vikum hélt íslendingafélagið í DTU bjórkvöld hérna á Sólbakken. Ég kíkti auðvitað aðeins þar sem þetta var nú hérna í húsinu og viti menn meðan ég var að spjalla við Guðlaugu og Hildi duttu gleraugun mín bara í sundur. Frekar fyndið en samt pirrandi um leið. Það var semsagt annar armurinn á gleraugunum sem datt af. Ég fékk bergdísi í lið með mér og við náðum að líma gleraugun saman svo ég gæti að minnsta kosti notað þau í nokkra daga, eða þangað til ég fengi ný. Þetta var frekar óheppilegur tími því á föstudeginum eftir var frídagur hérna í Danmörku (stóri bænadagurinn) og allar búðir lokaðar og ég var að vinna um helgina svo ég komst ekki í gleraugnabúð fyrr en á mánudeginum. Ég fann rosafín gleraugu og það var meira að segja tilboð 2 fyrir 1 svo ég fékk önnur gleraugu í kaupbæti og lét setja sólgler í þau :) En þar sem ég bý nú í Danmörku þar sem allt gengur svo hægt fyrir sig fæ ég ekki gleraugun fyrr en eftir viku núna og er nú þegar búin að bíða í viku. Límið heldur ennþá en það líður ekki á löngu þar til ég þarf að fara að líma upp á nýtt. Þetta var nú samt ekkert svo leiðinlegt því mig er búið að langa í ný gleraugu í nokkrun tíma...
Annað leiðinlegt atvik gerðist núna í fyrradag. Hjólinu hans Tryggva var stolið á Enghave station, hann kom heim úr skólanum og hjólið bara horfið. Hann fékk hjólið mitt lánað og hjólaði hring um hverfið og hitti þá annan mann sem líka var að leita að hjólinu sínu. Sem hafði staðið á sama stað og Tryggva og var líka nýtt og flott. Tryggvi fékk fría tryggingu í 3 mánuði með hjólinu svo við héldum nú að þetta væri ekki svo slæmt en þegar við fórum að skoða trygginguna betur kom í ljós að hún dekkaði bara yfir sjálfsábyrgð heimilistryggingar og við erum auðvitað ekki með heimilistryggingu. Við vorum að spá í því um daginn en erum ekki búin að gera neitt í því ennþá. En þetta er mun leiðinlegra mál en með gleraugun. Svo útgjöld þessa mánaðar eru allt í einu miklu hærri en reiknað hafði verið með..... en það hlýtur að reddast er það ekki.
Já það er nú eitthvað skemmtilegt búið að gerast líka. Á fimmtudaginn komu Ásta Sigga, Sif, Solla, Addi og Hrund í heimsókn til að horfa á undankeppni Eurovision. Það var mjög gaman að hitta þau en við vorum nú ekkert sérlega sátt við úrslitin. Þetta er eiginlega orðið að einhverri austur Eurovision keppni.
Á föstudaginn tók ég flug til Stavanger i Noregi. Frænka mín, Anna Þóra og frændi minn, Sigþór voru að fermast og því var stór hluti móðurfjölskyldu minnar mættur til Noregs. Ég lennti á svipuðum tíma og mamma, Þórdís systir, Guðný frænka og Afi. Það var mjög gaman að hitta fjölskylduna og vera með þeim í nokkra daga. Það var nóg að gera, auðvitað þurftu þeir sem eru búsettir á íslandi að skreppa í verslunarleiðangur í HogM og það fór enginn tómhenntur þaðan. Á laugardagskvöldið horfðum við svo á Eurovison og fylgdumst með kosningunum hema á Íslandi. Ég var sátt við vinningslagið í Eurovision en ekki alveg jafn sátt við úrslit kosninganna.
Á sunnudaginn var fermingardagurinn. Við mættum auðvitað í kirkjuna til að verða vitni að norskri fermingu. Það má segja að Norðmenn séu aðeins duglegri en við íslendingar að notað þjóðbúiningana sína. Það var önnur hver kona í þjóðbúiningi og þónokkrir karlar. Nánast allar stelpurnar sem voru að fermast voru líka í þjóðbúningi. Messan var þónokkuð öðruvísi og var svolítið gospel leg það var ein söngkona sem söng og svo söng presturinn stundum með og undirspilið var gítar og píanó, en það var bara mjög skemmtilegt. Veislan var haldin í sal og við fengum góðan mat og góðar kökur. Veðrið var mjög gott sól og blíða og ég fékk að fara út að leika við frænkur mínar til að búa til pláss fyrir kökurnar :) Á mánudaginn var svo haldið heim á leið.

Jæja látum þetta duga af fréttum í bili
Kv Þórhildur