Monday, March 26, 2007

Sumarblíða eða allavega vorblíða í Köben

Jæja það er víst kominn tími til að skrifa nokkrar línur. Um helgina og í dag hefur verið mjög gott veður, sól og blíða. Nú er bara að vona að veðrið haldist svona fram á vor. Ég hef reyndar heyrt að við eigum von á dálitlu páskahreti en ég blæs bara á þær fréttir og óska hér með eftir góðu veðri :) Ég var einmitt að koma úr göngutúr í Fredriksberg Have.

Annars er allt gott að frétta af okkur, ekkert svo merkilegt búið að gerast síðan síðast. Ég er ennþá að gera lokaverkefnið og Tryggvi á fullu í skólanum. Hann er á þessari önn hjálparkennari í einum áfanga svo hann hætti í vinunni þar sem það var orðið full mikið að gera.

Ég fór til Íslands fyrir rúmri viku til að kaupa páskaegg, nei djók! Aðalástæðan fyrir ferðinni var að Þórdís litla systir mín sem ekki er svo lítil lengur var að fermast. Þetta var stutt heimsókn og náði ég að gera lítið annað en að hjálpa til við veisluundirbúining og svo auðvitað vera til staðar á stóra deginum. Þórdís var ótrúlega sæt og fín í tilefni dagsins. Ég fékk það hlutverk að fylgja henni fyrrihluta dagsins, sækja úr hárgreiðslu, fara með hana í myndatöku og koma henni svo í kirkjuna á réttum tíma. Hún tók sig vel út hjá ljósmyndaranum og var alveg með pósurnar á hreinu svo ég bíð spennt eftir að sjá afraksturinn. Veislan heppnaðist vel í alla staði og Þórdís fékk fullt af flottum gjöfum en auðvitað flottustu gjöfina frá okkur systkinunum og viðhengjum. Ég keypti rauðan ipod mini á netinu og lét áletra hann og hún var auðvitað mjög ánægð.
Ég náði reyndar að gera nokkra aðra hluti á íslandi sem mig var búið að dreyma um áður en ég fór, það var að fara í sund, borða pulsu, kaupa ís með dýfu og svo fékk ég mér líka kókosbollu. Það er fyndið hvað maður saknar þegar maður er ekki á íslandi. Svo keypti ég auðvitað páskaegg til að taka með mér aftur heim til DK.

Á laugardaginn var árshátíð íslendingafélagsins í DTU, hún var haldin í Jónshúsi og heppnaðist mjög vel. Stjórnin eldaði sjálf mat og það var mjög góður matur. Eftir matinn var svo búið að skipuleggja hópferð á Klúbbin EMMA ég hef aldrei komið þangað áður en það er flottur og fansí staður og vel við hæfi þar sem allir voru í sínu fínasta pússi. Það sem mér fannst alveg frábært við staðinn er að það mátti ekki reykja inni, hlakka til í sumar þegar það verður bannað að reykja á öllum skemmtistöðum í Köben. Ég var nú ekkert sérlega lengi því ég var að fara að vinna á sunnudagsmorguninn. Fór heim rúmlega eitt en þar sem það var breytt í sumartíma um nóttina var klukkan í raun rúmlega tvö og því var ég ansi þreytt þegar ég þrufti að vakna hálf sjö nokkrum tímum síðar.

Ég hristi nú samt af mér þreytuna og skellti mér í vinnuna. Eftir vinnu fór ég á fund með stelpunum í Finnlandsverkefninu uppi í skóla og hjólaði þangað. Ég villtist aðeins á leiðinni en það var allt í lagi því ég hafði góðan tíma og veðrið var svo gott. Ég ákvað svo að nýta mér góða veðrirð og prufa að hjóla heim úr skólanum. Það tók tæpan klukkutíma sem er svipað langur tími og það tekur að taka lest og strætó. Spurning hvort maður ætti aðbyrja á þessu á hverjum degi....
Ætli það sé svo ekki kominn tími til að setja aðalfréttina á veraldarvefinn.
Við Tryggvi erum að verða foreldrar um miðjan september, spennó spennó. Ég læt fylgja sónar mynd frá því í tólf vikna sónar en þá var barnið 6 sm frá höfði að rófubeini. Núna er ég komin rúmar 15 vikur og þá á barnið að vera orðið 9,5 sm frá höfði að rófubeini svo það stækkar hratt. Ég er ekki komin með neitt sérlega bumbu, það lítur bara út eins og ég hafi fitnað smá en ég finn að hún er þarna einhverstaðar :)

Jæja ætli ég láti þetta ekki nægja í bili.